dutyfree.is > Fréttir > Ný verslun fyrir farþega á leið til landa utan Schengen svæðis
FRÉTTIR
28.06.2013 | Ný verslun fyrir farþega á leið til landa utan Schengen svæðis

Fríhöfnin hefur opnað nýja og glæsilega verslun sem er fyrir brottfararfarþega sem eiga leið til landa sem ekki tilheyra Schengen sáttmálanum. Farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll hefur fjölgað mjög ört síðastliðin ár og spár sýna að svo verði áfram næstu misseri. Þessi fjölgun hefur kallað á endurskipulag á biðsvæði farþega sem og á verslunarsvæði í suðurbyggingunni.

Nýja verslunin er um 650m² að stærð og þykir öll hin glæsilegasta. Farþegar geta fundið alla helstu vöruflokka sem eru í öðrum verslunum Fríhafnarinnar á svæðinu en auk þess er samstarf við aðra rekstraraðila í flugstöðinni. Mikil áhersla er lögð á íslenska hönnun og íslenskar vörur í versluninni og eins vörum sem henta vel til gjafa eða minja eftir vonandi ánægjulega heimsókn til landsins. Einnig er svokallað „búð í búð“ fyrirkomulag þar sem sala á sólgleraugum, íslenskum skartgripum og hönnun býðst farþegum en þetta fyrirkomulag er í samstarfi við aðra rekstaraðila í flugstöðinni. Einnig eru 66° norður útivistavörurnar á boðstólnum, fyrir karlmenn, konur og börn.

Það er Sæbjörg Guðjónsdóttir, innanhússhönnuður sem hannaði verslunina í samstarfi við stjórnendur og verkið var unnið af ÍAV þjónustu. Hugmyndin á bak við verslunina í suðurbyggingu var að reyna að fanga athygli þeirra ferðamanna sem millilendir á Íslandi, fer aldrei inn í landið og sér því ekki hvað það hefur upp á að bjóða. Aðspurð um hönnunina segir Sæbjörg: ,,eitt af því sem fólki dettur kannski helst í hug þegar það hugsar um Ísland er eldgosið í Eyjafjallajökli og því var það útgangspunkturinn að hönnun rýmisins. Mikilvægt var að hafa rýmið bjart, áreynslulaust en jafnframt minnisstætt. Reynt var að minna á Ísland í efnis og litavali og því er hvíti liturinn ráðandi á veggjum sem endurspeglar jöklana okkar, koparinn endurspeglar glóandi hraunið og svo var notast við yfir 100 kg af ösku úr sjálfum Eyjafjallajökli, sem fengin var úr bakgarðinum hjá bóndanum á Þorvaldseyri. Öskunni var sprautað á upplýst rör sem mynda innganginn í verslunina en er jafnframt útstilling fyrir íslenskar vörur. Innréttingar minna á hrjúfa hraunið, furan á eina af okkar algengustu trjátegund og græni liturinn inná milli táknar mosann sem breytt hefur úr sér á grófu hrauninu“. Það er því ekki að undra að margir ferðamenn hafi orð á því hversu falleg búðin sé.

Fríhöfnin hefur verið að ganga í gegnum endurmörkun síðastliðin ár. Félagið hefur tekið nýtt merki í notkun, breytingar hafa verið á verslunum og heimasíðan uppfærð. Heimasíðan er mun notendavænni, hraðvirkari og er nær  nútímanum. Viðskiptavinir geta skoðað heimasíðuna í tölvunni, spjaldtölvunni eða í símanum. Á nýju heimasíðunni er hægt að skoða meðal annars tískufatnaðinn sem fæst í Dutyfree Fashion, má þar nefna íslensku merkin; Ella, Farmers Market, Freebird, Kronkron og Re101 íslensku herraskóna sem gerðir eru úr íslensku laxaleðri. Þar er einnig að finna nýjasta merkið, Huginn Muninn sem er með flottar herraskyrtur sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Það ætti því að vera þess virði að upplifa Fríhöfnina fyrir hvern þann sem fer í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.