Karfa
Afslættir
Samtals

Við erum að sækja körfuna þína...

Saga

Á árunum 1951-1957 var mikil aukning á flugi um Keflavíkurflugvöll, einkum þó árið 1956. Þann 23.maí 1958 voru samþykkt á Alþingi lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja áfengi, tóbak og fleira á Keflavíkurflugvelli til farþega í framhaldsflugi. Var fríhafnarverslunin opnuð í lítilli flugstöðvarbyggingu 15. september sama ár með það fyrir augum að afla gjaldeyristekna af millilandafarþegum sem ekki höfðu frekari viðdvöl hér á landi. Í ársbyrjun 1970 var svo samþykkt á Alþingi breyting á lögum um tollvörugeymslur, er heimilaði uppsetningu komuverslunar við fríhöfnina og tók sú verslun til starfa í maí sama ár. Í fyrstu var um að ræða mjög lítið fyrirtæki en það hefur vaxið mjög allt frá stofnun og hefur vöxturinn haldist í hendur við aukningu utanlandsferða Íslendinga.

Árið 1987 urðu tímamót í sögu Fríhafnarinnar er Leifsstöð var tekin í notkun. Glæsileg umgjörð var sköpuð í kring um stórbætta þjónustu og aukið vöruval. Ekki stóð á viðtökunum, því sala í Fríhöfninni jókst um meira en helming frá árinu áður.

Fríhöfnin hefur frá upphafi verið í eigu ríkisins, en á síðustu misserum hafa ýmsir þjónustuþættir færst yfir á hendur einkaaðila. Á árinu 1998 fjölgaði verslunum á brottfararsvæðinu þegar ný rými voru tekin í notkun.  Fram að þeim tíma voru reknar tvær verslanir, hefðbundin fríhöfn og verslun með íslenskar vörur.  Við bættust verslanir með kvenfatnað, íþróttavörur, herrafatnað, gleraugu, úr og skartgripi, og gjafavöru.  Auk þess var þjónusta á sviði gjaldeyrisviðskipta aukin, meiriháttar breytingar gerðar á veitingarþjónustu og umsvif aukin.

Við stofnun hlutafélagsins Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. með lögum frá Alþingi í maí árið 2000 var sameinaður rekstur tveggja ríkisstofnanna. Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli sem rak fríhafnarverslunina og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem rak fasteignina.

Sumarið 2002 voru tvær nýjar Fríhafnarverslanir opnaðar í Suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar með það að markmiði að taka vel á móti farþegum sem koma til Íslands frá löndum utan Schengen. Skiptifarþegar geta nú farið beint úr vélinni og inn í verslanir. Í þessum verslunum er lögð áhersla á áfengi, tóbak, snyrtivörur og sælgæti.

Í upphafi árs 2005 varð breyting á rekstrarformi Fríhafnarinnar þar sem ákveðið var að stofna dótturfélag um verslunarrekstur FLE hf. Fríhafnarverslunin var þar með aðskilin rekstri FLE, bæði stjórnunar- og rekstrarlega.

Þann 15. apríl 2005 tók Fríhöfnin ehf. í notkun nýtt vöruhús. Vöruhúsið er staðsett innan frísvæðis á Keflavíkurflugvelli sem auðveldaði alla vörumeðhöndlun til muna frá því sem áður var. Vöruhúsið er útbúið fullkomnu hillu- og tölvukerfi sem tryggir mikið hagræði í lagerhaldi og dreifingu.

Í júní sama ár tók Fríhöfnin ehf. í notkun nýja verslun í komusal flugstöðvarinnar. Verslunin var stækkuð um 460 fermetra frá því sem áður var og var nú orðin 1.000 fermetrar að stærð. Hver vöruflokkur fékk aukið rými í stækkaðri verslun og úrval snyrtivara var aukið til muna í sérstakri snyrtivörudeild.

Í mars árið 2007 opnaði Fríhöfnin ehf. nýja og glæsilega verslun fyrir brottfararfarþega á 2. hæð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gólfflötur verslunarinnar er 1.150 fermetrar, sem lætur nærri að vera tvöföldun frá því sem var í gömlu Fríhafnarversluninni. Aðstæður til viðskipta og vörukynninga eru til fyrirmyndar í nýrri verslun, vítt er til veggja og mikil áhersla lögð á góða lýsingu í verslunarrýminu.

Stuttu eftir opnun nýrrar verslunar fyrir brottfararfarþega hætti Fríhöfnin ehf. sölu á raftækjum og margmiðlunarvörum en ELKO og Skífan tóku við sölu á þeim vöruflokkum í flugstöðinni. ELKO tók alfarið við sölu á þessum vörum í maí 2009.

Þann 10. apríl 2008 var ný komuverslun opnuð á 1.hæð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Nýja komuverslunin er um 1.500 fermetrar að flatarmáli og hefur verið stækkuð um 1.000 fermetra frá því breytingar á henni hófust 1. júní 2005. Áhersla var lögð á að gera nýja verslun bjarta og skemmtilega með það að markmiði að farþegar geti notið þess að versla tollfrjálsan varning við komuna til landsins. Viðskiptavinir í komuverslun geta keypt raftæki og afþreyingarefni við komuna til landsins en ELKO annast sölu á þeim vöruflokkum í versluninni.

Í júlí 2010 tók Fríhöfnin við rekstri á tískuvöruverslunni SagaShop af Icelandair og fékk verslunin nafnið Dutyfree Fashion. Þar voru vörumerki á borð við Boss, Burberry, Lloyd og íslensk hönnun eins og Farmers Market, ELLA, KronKron o.fl. Vorið 2015 hætti Fríhöfnin rekstri á Dutyfree Fashion.

Þann 29. febrúar 2012 opnaði Fríhöfnin fyrstu Victoria's Secret verslunina á Íslandi, í brottfararverslun. Í versluninni sem er 70m2 að stærð, býðst viðskiptavinum Fríhafnarinnar mikið úrval af vinsælustu vörunum í Victoria‘s Secret Beauty vörulínunni, þar á meðal verða hin þekktu Bombshell og VS Angel ilmvötn, sem slegið hafa í gegn víða um heim. Þar er einnig boðið upp á sérstakt úrval af  leðurvörum, töskum, nærbuxum og öðrum hátísku fylgihlutum frá Victoria‘s Secret.

Sumarið 2013 fengu tvær verslanir þ.e. komuverslunin og verslunin í suðurbyggingunni alveg nýtt og glæsilegt útlit, komuverslun þann 21. júní og verslunin í suðurbyggingu þann 14. júní. Hönnunin á verslununum fléttast saman við nýja merkið sem var tekið í notkun á sama tíma. Komuverslunin er um 1.500 m² að stærð eins og áður með mjög fjölbreytt vöruúrval. Kassinn sem rammar inn heitið á Fríhöfninni í merkinu á stóran þátt í útlitinu en hann rammar inn hin ýmsu svæði, er í innréttingum og upplýstum kössum svo eitthvað sé nefnt. Glaðleg stemning og húmor myndast þar sem flottir „branded“ gólfstandar eru komnir inn í áfengis- og sælgætisdeild, barnasvæðið er lokað af með skemmtilegum lágum veggjum og skemmtilegar handgerðar glerljósablöðrur í ýmsum litum hanga úr loftinu sem vekja mikla athygli. Verslunin í suðurbyggingunni er um 650m² að stærð og þykir öll hin glæsilegasta. Farþegar geta fundið alla helstu vöruflokka sem eru í öðrum verslunum Fríhafnarinnar á svæðinu en auk þess er samstarf við aðra rekstraraðila í flugstöðinni. Mikil áhersla er lögð á íslenska hönnun og íslenskar vörur og vörur sem henta vel til gjafa eða minja eftir vonandi ánægjulega heimsókn til landsins. Hugmyndin á bak við verslunina í suðurbyggingu er að reyna að fanga athygli þeirra ferðamanna sem millilenda á Íslandi, fara aldrei inn í landið og sjá því ekki hvað það hefur upp á að bjóða.

Þann 12. júní 2015 var formleg opnun á breyttri brottfararverslun, helsta breytingin var sú að nú er hún með svokölluðu 100% flæði, þ.e.a.s. allir brottfararfarþegar ganga í gegnum búðina eftir öryggisleit. Aðrar breytingar eru; nýtt kassasvæði með raðaleiðara til þess að flýta þjónustu, nýtt og flottara tóbaksherbergi, nýtt og stórglæsilegt íslenskt áfengishorn, færsla á herrasnyrtivörum svo eitthvað sé nefnt. Verslunin er um 1.500 m² að stærð.

Í dag starfa í Fríhöfninni um 210 manns og á sumrin bætast við 100 til viðbótar.